Djúpnýting jarðhita
Djúpnýtingarvegferð Orkuveitunnar snýr að því að þróa aðferðir til nýtingar jarðhita úr dýpri og heitari jarðlögum en nýtt eru í dag. Í dag nýtum við jarðvarma á háhitasvæðum niður á um 2-3 km dýpi við allt að 350°C. Markmið djúpnýtingar er að nýta svokallaðan ofurheitan jarðhita við meira en 400°C og ná þannig einnig að dýpka nýtingarsvæðin niður á allt að 4-5 km dýpi.
Orkuveitan hefur tekið þátt í margs konar samstarfi sem miðar að þessari nýtingu. T.d. hefur Orkuveitan verið þátttakandi í íslenska djúpborunarverkefninu (IDDP) frá upphafi. Orkuveitan tekur einnig þátt í tækniþróun innan KMT verkefnisins og hefur síðastliðin ár tekið þátt í ótal verkefnum sem styrkt hafa verið af Evrópusambandinu og Geothermica og miða að nýtingu ofurheitra jarðlaga á meira dýpi en þekkist á Íslandi í dag. Þar má t.d. nefna verkefnin, COMPASS, DEEPEN, HotCase og GeoPro.
Áætlað er að bora þriðju holuna innan IDDP verkefnisins; IDDP-3, í lok árs 2026. Ári síðar er áætlað að bora niðurdælingarholu til að kanna niðurdælingu vatns í ofurheit jarðlög.