Umhverfið

Loading...

Orkuveitan og dótturfyrirtækin hafa umsjón með um 19.000 hekturum lands sem fyrirtækin hafa eignast til að fá afnot af auðlindum sem þar er að finna; jarðhita eða neysluvatni. Svæðin eru almenningi aðgengileg eins og kostur er og áhersla lögð á góða umgengni og vandaðan frágang eftir framkvæmdir á svæðunum.

Dreifikerfi Orkuveitunnar – hitaveita, rafveita, vatnsveita, fráveita og ljósleiðari – eru samtals hátt í 20.000 kílómetra löng og kvíslast um fleiri en 20 sveitarfélög. Áframhaldandi uppbygging og viðhald veitna og virkjana kallar á rask sem Orkuveitan leggur áherslu á draga sem mest úr og ganga vel frá eftir sig.

Starfsemi Orkuveitunnar nýtur óháðrar vottunar á því að hún uppfylli kröfur ISO 14001 umhverfisstjórnunarstaðalsins.

Umhverfismarkmið Orkuveitunnar

  • Leggja ríka áherslu á vatnsvernd, sýna ábyrga vinnslu úr vatnsauðlindum og vinna heilnæmt neysluvatn til langrar framtíðar
  • Sýna ábyrga umgengni og vinnslu úr lághitaauðlindum
  • Sýna ábyrga umgengni og vinnslu úr háhitaauðlindum, draga úr losun brennisteinsvetnis og losa jarðhitavatn á ábyrgan hátt
  • Sýna ábyrga umgengni og rekstur fráveitu
  • Meðhöndla úrgang á ábyrgan hátt
  • Beita áfram árangursríkum aðferðum við frágang vegna rasks
  • Vera í fararbroddi í vistvænum samgöngum

Hreinar strendur

Skilvirk fráveita er undirstaða heilnæms þéttbýlis. Veitur annast uppbyggingu og rekstur fráveitu í Reykjavík, Akranesi og Borgarbyggð. Frárennsli frá Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi auk hluta Garðabæjar er hreinsað í hreinsistöðvum við Ánanaust og Klettagarða eða frá um 60% þjóðarinnar. Þannig njóta öll upptökusvæði fráveitnanna hreinsunar á skólpi.

Hreinar strendur - alltaf, er markmið Veitna. Breyta þarf hönnun fráveitukerfisins svo óhreinsað skólp sé ekki losað í sjó vegna bilana eða viðhalds. Fyrsta dælustöð fráveitu af þeirri nýju kynslóð slíkra stöðva sem gera þetta mögulegt verður byggð á næstu árum.

Fráveita

Myndin sýnir uppbyggingu fráveitukerfis Veitna á höfuðborgarsvæðinu og hvar og hvernig fylgst er með því að fráveitukerfið gegni heilbrigðishlutverki sínu. Þá er unnið að innleiðingu svokallaðra blágrænna ofanvatnslausna. Þær fela í sér einfaldari og ódýrari leiðir við meðferð regnvatns þar sem það fellur og minnka þar með álag á fráveituna.

Smelltu hér til að fræðast meira um fráveituna.