20. október 2025

Orkuveitan leiðir þróun ofurheitrar jarðhitanýtingar

Loading...

Hera Grímsdóttir kynnti framtíðarsýn IDDP-3 á Superhot Summit í Hörpu

Á ráðstefnunni Superhot Summit, sem haldin var í Hörpu í tengslum við Hringborð Norðurslóða (Arctic Circle), kynnti Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra rannsókna og nýsköpunar hjá Orkuveitunni, framtíðarsýn fyrirtækisins í þróun næstu kynslóðar jarðhitanýtingar – það sem við höfum kallað djúpnýtingu.

Viðburðurinn var haldinn að frumkvæði Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samstarfi við íslenskan orkugeira. Þar var m.a. undirrituð samstarfsyfirlýsing um IDDP-3 djúpborunarverkefnið milli ráðuneytisins og orkufyrirtækjanna Landsvirkjunar, Orkuveitunnar og HS Orku en við hjá Orkuveitunni leiðurm verkefnið nú.

Markmiðið með viljayfirlýsingunni er að hraða þróun næstu kynslóðar jarðvarmakerfa sem hluta af langtímastefnu Íslands í orkumálum.

„Við ætlum að bora dýpra, ná í meiri orku og skapa ný tækifæri fyrir sjálfbæra framtíð“

Í erindi sínu sagði Hera m.a. að Orkuveitan og dótturfélagið Orka náttúrunnar hefðu hafið undirbúning að IDDP-3 borun á Nesjavöllum, sem áætlað er að hefjist árið 2026, í námunda við borholuna NJ-11 sem boruð var árið 1985. Með nýjustu tækni og víðtæku samstarfi við innlenda og erlenda vísindaaðila verði markmiðið að virkja orku við allt að 400°C hita á 4–5 km dýpi.

„Það að bora dýpra en við höfum áður gert er næsta þróunarskref í orkuvinnslu. Með því að virkja orku úr dýpri og heitari lögum jarðar getum við margfaldað afköst einstakra borhola, dregið úr kostnaði og minnkað umhverfisáhrif,“ sagði Hera í erindi sínu.

„Þetta snýst ekki aðeins um tækniframfarir heldur um framtíð sjálfbærrar orku – bæði fyrir Ísland og heiminn allan.“

Hera lagði áherslu á að verkefnið sameini rannsóknir, nýsköpun og hátæknilausnir á sviði verkfræði, jarðvísinda og gervigreindar. Með prófunum á nýjum borhönnunum, flæðikerfum og greiningartækni við raunverulegar aðstæður verði stigið mikilvægt skref í átt að fullri nýtingu ofurheitra jarðhitakerfa.

Sterkur pólitískur og vísindalegur vilji að baki

Í ræðu sinni á viðburðinum sagði Jóhann Páll Jóhannsson ráðherra að Ísland hefði einstakt tækifæri til að verða leiðandi afl í þróun ofurheitrar jarðhitanýtingar:

„Ef við getum virkjað svæði þar sem hitinn fer yfir 400°C, getum við endurskilgreint hagfræði hreinnar, öruggrar orku,“ sagði ráðherra.
„Ofurhiti getur skapað grunn að nýjum atvinnugreinum, nýsköpun og verðmætasköpun.“

Þá kynnti hann einnig að vinna sé hafin við fyrsta jarðhitavegvísi Íslands, sem gildi til ársins 2050 og setji fram stefnu og markmið í jarðhitaþróun, rannsóknum, nýsköpun og sjálfbærni.

Næsti kafli í sögu íslenskrar orkuvinnslu er þegar skrifaður

Orkuveitan hefur í yfir öld verið frumkvöðull í nýtingu jarðhita og var brautryðjandi í byggingu fyrsta stórfellda hitaveitukerfis heims fyrir höfuðborgarsvæðið. Nú tekur fyrirtækið næsta stóra skref – að kanna ofurheitt jarðhitakerfi.

„Við byggjum á áratuga reynslu, öflugu vísindasamfélagi og samvinnu við nýsköpunarfyrirtæki,“ sagði Hera. „Þannig mótum við ekki aðeins framtíð orkunýtingar á Íslandi – heldur bjóðum við heiminum lausn á einni stærstu áskorun samtímans.“

Hér getur þú lesið meira um djúpnýtingarverkefni Orkuveitunnar.

Loading...
Loading...
Loading...
Loading...
Loading...
Loading...