Ein hitaveita
Árið 2018 hófst vinna við rannsóknarverkefni sem snýr að sameiningu hitaveitukerfis höfuðborgarsvæðisins. Kerfið er tvískipt; annars vegar upphitað grunnvatn frá jarðvarmavirkjunum Orku náttúrunnar og hins vegar lághitavatn frá Veitum. Þessum tveimur gerðum vatns má ekki blanda saman vegna myndunar útfellinga. Markmið verkefnisins Ein hitaveita er að breyta vinnslu á heitu vatni hjá virkjunum Orku náttúrunnar þannig að þar verði framleitt vatn sem unnt er að blanda við lághitavatn í dreifikerfi hitaveitu höfuðborgarsvæðisins án þess að mynda útfellingar.
Verkefnið er gríðarlega mikilvægt þar sem það stuðlar að stórbættri auðlindanýtingu Orkuveitunnar, bæði á lághitasvæðum Veitna á höfuðborgarsvæðinu og í virkjunum Orku náttúrunnar í Hengli. Þar sem við munum reka kerfið með grunnafli og toppafli getum við látið lághitasvæðin endast lengur til framtíðar, stóraukið nýtingu heits vatns frá virkjunum og þar með minnkað umhverfisáhrif þeirra og framleitt nýja vöru sem selja má á markaði
Auk þessa mun verkefnið auka hámarksafl úr núverandi virkjuðum auðlindum, auka nýtingarhlutfall varmaframleiðslu virkjana sem skilar sér í minni auðlindasóun ásamt því að draga úr umhverfisáhrifum.
Rannsóknir lofa góðu og hafa þegar nýst vegna vatnaskipta og sumarhvíldar lághitasvæða á höfuðborgarsvæðinu. Takist verkefnið hefst uppsetning ferlisins á smáum skala á Hellisheiði til að sanna virkni í sambærilegu kerfi og verður byggt upp að lokum í fullum skala. Rannsóknahluta verkefnisins lýkur 2025 og þá hefst undirbúningur á breytingum í virkjunum Orku náttúrunnar.