Hengillinn
Hengilssvæðið er háhitasvæði um 20 kílómetra suðaustur af Reykjavík og kjörið til fjölbreyttrar útivistar allan ársins hring. Tugþúsundir Íslendinga og erlent ferðafólk stunda útivist á svæðinu en þar eru um 130 kílómetrar af merktum stígum, upplýsingaskilti, gönguskálinn Múlasel og kort sem sýnir gönguleiðir og varðaðar leiðir. Orkuveitan hefur haft veg og vanda af þessu starfi frá árinu 1991, í samráði við sveitastjórnir á svæðinu. Utan athafnasvæða jarðhitavirkjana Orku náttúrunnar er svæðið opið almenningi en gæta skal sérstakrar varúðar við hveri og heita læki en einnig við borholur vegna heitrar gufu og hættu á gasmengun.
Um leið og fólki er velkomið að njóta stórbrotinnar náttúru og útivistarsvæðis Hengilsins biðjum við útivistarfólk um að ganga af virðingu um svæðið og lágmarka rask. Hengilssvæðið er á virku gosbelti og er einstakt jarðhitasvæði með óvenju mikið vatn á yfirborðinu. Þar er að finna heita hveri, hraungíga, gróðursæla bletti, ár og vötn. Þar eru líka heitir lækir með sérstæðu vatnalífi og lífríki sem því tengist og votlendi með sérstæðan votlendisgróður með hátt verndargildi. Undirlagið er margbreytilegt og þolir sjaldan mikinn ágang en með því að fylgja stígum má tryggja að hægt verði að njóta svæðisins áfram.
Göngustígar
Hengilssvæðið býður upp á ótrúlegt úrval skemmtilegra gönguleiða, hvort sem leitað er að stuttri fjölskyldugöngu eða lengri ferð um náttúruperlur Hengilssvæðisins. Samanlögð lengd stíganna á Hengilssvæðinu er um 110 kílómetrar.
Orkuveitan heldur úti viðhaldsteymi útivistarstíga á Hengilssvæðinu. Ábendingar um ástand stíga berist til hengill@orkuveitan.is.
Múlasel – gistiaðstaða á Hengilssvæðinu
Múlasel er skáli við Engidalsá sem reistur var samhliða uppbyggingu gönguleiða á Hengilssvæðinu. Skálinn þjónar sem afdrep og skjól fyrir útivistarfólk á svæðinu, hvort sem er til að taka sér stutta pásu eða dvelja yfir nótt.
Í skálanum er ókynnt svefnaðstaða með þremur kojum, samtals sex tvíbreiðum rúmum. Þar ríkir notalegt andrúmsloft þar sem gestir geta hvílst og notið kyrrðar og náttúru svæðisins.
Aðstöðugjald er 1.000 krónur á mann, og greiðist í bauk á staðnum. Kamar er staðsettur rétt ofan við skálann.
Ekki er hægt að bóka gistingu fyrir fram en skálinn er opinn öllum svo lengi sem húsrúm leyfir, samkvæmt reglunni fyrstur kemur, fyrstur fær.
Gestir eru beðnir um að taka allt rusl með sér og skilja við húsið í góðu ástandi, eins og komið var að því. Skálinn er ekki þjónustaður reglulega og því mikilvægt að allir notendur leggi sitt af mörkum til að halda honum hreinum og snyrtilegum.

Hagnýtar upplýsingar um Múlasel
- Staðsetning: Við Engidalsá á Hengilssvæðinu
- Ganga: Um 5 km frá Sleggjubeinsdal – tekur um það bil 1,5 klukkustund að ganga
- Aðstöðugjald: 1.000 kr. á mann (greitt í bauk á staðnum)
- Svefnaðstaða: 3 kojur / 6 tvíbreið rúm
- Kamar: Rétt ofan við skálann
- Athugið: Ekki er hægt að bóka gistingu fyrir fram