Fræðsla

Loading...

Orkuveitan leggur metnað í að fræða börn og fullorðna um starfsemi sína, sögu hennar og í uppbyggingu frekari vísindalegrar þekkingar á starfssviði Orkuveitunnar.

Elliðaárstöð

Elliðaárstöð er lifandi áfangastaður í hjarta borgarinnar. Hér koma gestir saman til að fræðast, upplifa, skapa og njóta náttúrunnar.

Rafstöðin í Elliðaárdal markaði upphaf rafvæðingar í Reykjavík þegar hún var gangsett árið 1921 og lýsti hún leiðina til framtíðar. Rafmagnið og veiturnar sem fylgdu í kjölfarið umbyltu lífsgæðum borgarbúa og með þeim varð til þekking og hugvit sem samfélagið býr enn að í dag.

Líkt og árnar voru áður virkjaðar er nú lögð áhersla á að virkja fólk og hugvit í Elliðaárstöð.

Elliðaárstöð samanstendur af Rafstöðinni, Gestastofu, vatnsleikjagarði, Heimili veitna, gufubornum Dofra, borholuhúsi og kaffihúsinu Elliða.

Vísindamiðlarar Elliðaárstöðvar taka á móti skólahópum og öðrum gestum í leiðsagnir og fræðslu í Elliðaárstöð. Margar göngu- og hjólaleiðir liggja að svæðinu ásamt því eru stoppistöðvar Strætó í næsta nágrenni. Einnig er hægt að leigja aðstöðu fyrir viðburði og afnot af útisvæðinu.

Hér má kynna sér starfsemi Elliðaárstöðvar nánar.

Jarðhitasýningin

Nýting jarðhitans á sér langa sögu á Íslandi og er fléttuð djúpt inn í menningu okkar. Jafnvel þannig að við tökum nýtingu jarðhitaauðlindarinnar oft sem sjálfsagðan hlut í okkar daglega lífi, sögu og lífsgæðum.

Jarðhitasýningin býður upp á leiðsögn fyrir skólaheimsóknir og aðra gesti, þar sem áhersla er meðal annars á jarðfræði Íslands, nýtingu jarðvarmans í orkuvinnslu, kolefnisföngun með Carbfix aðferðinni og starfsemi Jarðhitagarðs ON.

Jarðhitasýningin hefur það að markmiði að sýna okkur hvernig jarðhiti og nýting hans fléttast inn í menningu okkar, en stóran hluta lífsgæða á Íslandi má sannarlega rekja til náttúruauðlinda landsins og hvernig okkur hefur tekist að nýta þær.

Hér má kynna sér Jarðhitasýninguna nánar.