Orkuveitan borar sína fyrstu rannsóknarholu í fimmtán ár
Orkuveitan hóf fyrir skömmu borun fyrstu rannsóknarholunnar í Meitlum í Sveitarfélaginu Ölfusi með það að markmiði að tryggja örugga og sjálfbæra orkuöflun og mæta vaxandi eftirspurn eftir heitu vatni og rafmagni.
Rannsóknarholan í Meitlum er sú fyrsta sem Orkuveitan borar í fimmtán ár og jafnframt fyrsta granna rannsóknarholan sem fyrirtækið vinnur að. Hún er minni að umfangi en hefðbundnar rannsóknarholur og mun veita mikilvægar upplýsingar um hita, þrýsting og eðli jarðhitakerfisins á svæðinu, sem mun leggja grunn að ákvörðunum um framtíðarvinnslu.
„Þessi borun markar tímamót í orkuöflun Orkuveitunnar,“ segir Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra rannsókna og nýsköpunar hjá Orkuveitunni. „Við höfum ekki borað rannsóknarholu af þessu tagi í fimmtán ár og það er ánægjulegt að nýta nú nýjustu grænu tækni við framkvæmdina.“
1.500 metra djúp hola
Rannsóknarholan verður 1.500 metra djúp og nýtist til að afla upplýsinga um hita, þrýsting og eiginleika jarðhitavökva í jarðhitakerfinu sem leynast kann undir Meitlum.
Holan er staðsett á jaðri þekktrar jarðhitaauðlindar og er markmið rannsóknarinnar að kanna hvort þar leynist nýtanleg auðlind. Til að lágmarka umhverfisáhrif er borað með 100 tonna rafmagnsdrifnum jarðbor sem er hljóðlátari, krefst minna borplans, rafmagns og vatns en hefðbundinn olíubor.
Stækkun vinnslusvæðis og aukin orkuöflun
Til að tryggja áfram örugga orkuöflun fyrir heimili og fyrirtæki er nauðsynlegt að stækka vinnslusvæðið í Hverahlíð og kanna ný svæði í Meitlum. Borun rannsóknarholunnar er liður í þeirri vinnu og markar upphaf nýs áfanga í nýtingu jarðhita á svæðinu.
„Rannsóknarborunin í Meitlum er hluti af þeirri framtíðarsýn sem Orkuveitan vinnur eftir til að tryggja græna orku á ábyrgan og sjálfbæran hátt,“ segir Harpa Pétursdóttir, forstöðumaður Nýrra orkukosta hjá Orkuveitunni. „Við erum að kanna nýja möguleika til að mæta aukinni orkuþörf án þess að ganga á auðlindina. Þannig leggjum við grunn að orkuöflun sem þjónar bæði nútíð og framtíð.“
Orkuveitan er orku- og veitufyrirtæki í almannaeigu sem hefur um áratugaskeið gegnt lykilhlutverki í orkuöflun fyrir samfélagið. Hlutverk félagsins er að vera aflvaki sjálfbærrar framtíðar en í því felst að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er treyst fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.