Vatnsból
Aðgangur að hreinu neysluvatni er ein verðmætasta auðlind fyrir íbúa og atvinnulíf. Það er einstakt á heimsvísu að höfuðborgarsvæði hafi aðgang að hreinu drykkjarvatni sem lítið eða ekkert þarf að meðhöndla.
Flest lítum við á hreint neysluvatn sem sjálfsagðan þátt í daglegu lífi. Skortur á aðgengi að hreinu vatni getur haft alvarlegar afleiðingar og það er því óviðunandi að öryggi drykkjarvatns sé ógnað.
Sjálfbær nýting vatnsbóla felur í sér að komandi kynslóðir búi við sömu tækifæri og núlifandi kynslóðir til að nýta þau og að unnt sé að staðfesta að þannig sé að verki staðið. Vegna þeirrar ábyrgðar sem fyrirtækinu er falin mun Orkuveitan standa vörð um vatnsbólin fyrir hættum og ágengni, en rekstur vatnsveitna er í höndum Veitna, dótturfélags Orkuveitunnar.
Elstu vatnsból Orkuveitunnar eru Gvendarbrunnar í Heiðmörk. Þaðan var vatni fyrst veitt til bæjarins árið 1909 og enn þjóna Gvendarbrunnar borgarbúum. Nú fær nær allt höfuðborgarsvæðið fær drykkjarvatn sitt úr vatnsbólum í Heiðmörk
Vatnsvernd
Vatnsbólin sem Veitur sækja vatnið í eru á vatnsverndarsvæði og það er mjög mikilvægt að við gætum öll varkárni í umgengni við þau. Helsta hættan er að svæðin mengist, t.d. með rusli, olíu, skólpi eða öðrum efnum því þessi efni geta komist í gegnum jarðlögin og í vatnið sem rennur neðanjarðar inn í vatnsbólin.
Á höfuðborgarsvæðinu eru vatnsbólin okkar í Heiðmörk. Vatnsverndarsvæðið í Heiðmörk er mjög umfangsmikið eða um 250 ferkílómetrar. Það er mikilvægt að allt fólk sem á leið um vatnsverndarsvæði skilji mikilvægi þess að ganga vel um og láti strax vita ef það verður vart við eitthvað sem það heldur að geti mengað vatnið.